Stöðumat nýliða, páskar og aðalfundur

Það hefur verið mikið að gera í hjálparsveitinni undanfarið. Helgina fyrir páska fór fram stöðumat nýliða 1. Það er hópurinn sem hóf nýliðaþjálfun hjá sveitinni síðasta haust. Í stöðumatinu sýndu nýliðarnir fram á að þeir hafi skilið og tileinkað sér þau vinnubrögð sem þeim hafa verið kennd í vetur.

Strútslaug

Í páskafríinu var farið í þriggja daga æfingaferð inn á Fjallabakssvæðið. Farið var á jeppum, snjóbíl og vélsleðum yfir Mýrdalsjökul og þaðan inn í Hvanngil þar sem gist var. Þar voru göngu- og fjallaskíði dregin fram og meðal annars skroppið í bað í Strútslaug. Svona ferðir eru gríðarlega mikilvægar fyrir félaga sveitarinnar til að öðlast reynslu í umgengni um tæki og búnað sveitarinnar í alvöru vetraraðstæðum. Með í för voru 6 meðlimir úr skoskri vinasveit hjálparsveitarinnar, Tweed Valley Mountain Rescue. Sveitirnar hafa síðustu ár skiptst á að heimsækja hvora aðra og er tilgangurinn að öðlast þekkingu og fá hugmyndir út frá því hvernig björgunarsveitir starfa í öðrum löndum.

Skidoo fjallshlíð

Helgina 9. - 10. apríl næskomandi verður haldið árlegt próf fyrir nýliða 2. Þeir hafa starfað með sveitinni í að minnsta kosti tvo vetur og verða að hafa lokið öllum nauðsynlegum námskeiðum til að fá að þreyta prófið. Þetta er gert til að staðfesta að þeir hafi þá lágmarksþekkingu sem þarf til að fá inngöngu í sveitina.

Hagglund snjóbíll

Föstudaginn 15. apríl verður síðan aðalfundur sveitarinnar þar sem nýliðarnir sem fá inngöngu skrifa undir eiðstaf og verða þar með formlega fullgildir meðlimir sveitarinnar. Auk þess eru önnur hefðbundin aðalfundarstörf á dagskrá: Farið yfir skýrslur síðasta starfsárs, stjórnarkjör, lagabreytingar o.s.frv. Fundurinn er opinn öllum fullgildum félögum sveitarinnar auk nýliða.

Deila fréttinni

Nýjustu fréttir

Hjálparsveit skáta í Kópavogi