Lög Hjálparsveitar skáta í Kópavogi

I. KAFLI: Nafn, heimili og markmið sveitarinnar.

1. gr. Heiti sveitarinnar

Sveitin heitir Hjálparsveit skáta í Kópavogi, skammstafað HSSK. Sveitin starfar í tengslum við Skátafélagið Kópa.

2. gr. Lögheimili

Heimili sveitarinnar og varnarþing er í Kópavogi.

3. gr. Markmið

Tilgangur sveitarinnar er;

a. Að stunda almenna björgunar-, leitar og hjálparstarfsemi, þegar verðmæti eða mannslíf eru í hættu.
b. Að halda uppi þjálfun með námskeiðum og æfingum fyrir félaga sína, svo þeir verði jafnan færir um að rækja markmið sveitarinnar.
c. Að afla þess búnaðar sem nauðsynlegur er til starfsins.

4. gr. Einkenni

Merki sveitarinnar er grænn skjöldur utan um hvítan hring og inni í hringnum er grænn jafnarma kross ásamt áletruninni Hjálparsveit skáta Kópavogi ritaðri með rauðu letri.

II. KAFLI: Réttindi og skyldur félaga.

5. gr. Skilyrði til aðildar

Félagar geta þeir einir orðið, sem uppfylla þessi skilyrði:

a. Eru fullra 18 ára.
b. Hafa starfað með sveitinni í minnst 12 mánuði.
c. Hafa staðist þær kröfur sem reglugerð nýliðaflokks HSSK kveður á um.
d. Hafa undirritað eiðstaf HSSK.

6. gr. Nafnaskrá

Nafnaskrá yfir alla sveitarfélaga skal jafnan vera til hjá stjórn sveitarinnar.

Við inngöngu í sveitina skal hver félagi undirrita eiðstaf HSSK.

Gestaaðild er hægt að veita félögum annarra sveita tímabundið og án atkvæðisréttar.

7. gr. Skyldur félaga

Félagar skulu sjálfir eiga lágmarks ferðabúnað. Vanræki félagsmaður að viðhalda búnaði sínum getur stjórnin meinað honum að taka þátt í nánar ákveðnum verkefnum sveitarinnar.

8. gr. Aðild og úrsögn

Inntökubeiðni og úrsagnir úr sveitinni skulu vera skriflegar og sendar stjórn sveitarinnar. Við brottför úr sveitinni getur félagi ekki gert tilkall til sjóða eða eigna sveitarinnar.

9. gr. Brottrekstur

Félagi getur sætt brottrekstri úr sveitinni fyrir þessar sakir:

a. Ef hann verður ber að því að spilla áliti sveitarinnar innan hennar eða utan.
b. Ef hann hefur áfengi eða ólögleg vímuefni um hönd í starfi fyrir sveitina.
c. Ef hann verður ber að óviðunandi umgengni um eignir og tæki sveitarinnar.
d. Ef hann sýnir sveitinni ítrekuð vanskil.
e. Ef hann rýfur eiðstaf HSSK eða vinnur gegn hagsmunum sveitarinnar.
f. Ef hann hefur gerst sekur um brot af ásetningi á siðareglum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, að mati siðanefndar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Gerist félagi brotlegur án þess að ástæða þyki að víkja honum úr sveitinni getur stjórn veitt honum formlega áminningu. Skal hún tilkynna það skriflega og færa til bókar.

Nú ályktar stjórnin að félagi sé rækur úr sveitinni. Skal hún tilkynna það skriflega. Gerist félagi brotlegur eftir að hafa verið áminntur með formlegum hætti skal horft til þess við ákvörðun stjórnar.

Sætti hlutaðeigandi sig ekki við úrskurð stjórnarinnar getur hann skotið máli sínu til næsta sveitarfundar.

10. gr. Siðareglur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Félögum ber að fylgja siðareglum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Verði félagi þess áskynja að siðareglur hafi verið brotnar skal hann senda erindi til Siðanefndar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar með rökstuðningi í samræmi við leiðbeiningar um innsend erindi til Siðanefndar.

Komist siðanefnd Slysavarnarfélagsins Landsbjargar að þeirri niðurstöðu að félagi í HSSK hafi gerst brotlegur við siðareglur félagsins:

a. Af ásetningi: getur félaga verið vikið úr sveitinni.
b. Af gáleysi: getur félaga verið veitt áminning, sem síðar getur leitt til brottvikningar úr sveitinni.

III. KAFLI: Skipulag, sveitarstjórn og fundir.

11. gr. Skipulag sveitarinnar

Sveitinni skal skipt í flokka. Stjórn skipar nefndir á vegum sveitarinnar og formenn flokka í upphafi hvers stjórnartímabils. Leitast skal eftir því að jafnræði sé með kynjunum.

Formaður flokks tilnefnir varaformann flokksins.

Reglugerðir og breytingar á reglugerðum sveitarinnar skal samþykkja á aðalfundi eða sveitarfundi. Tillögur að nýjum reglugerðum eða breytingum á eldri reglugerðum skulu fylgja fundarboði.

12. gr. Aðalfundur

Aðalfundur er æðsta vald í félagsmálum og gerir þær ákvarðanir um starfssemi sveitarinnar, sem þörf er á.

Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir félagar sem greitt hafa árgjald.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maí ár hvert, og til hans skal boða skriflega eða með tölvupósti með minnst viku fyrirvara.

Á dagskrá aðalfundar skal vera.

  1. Skýrsla stjórnar og reikningar.
  2. Skýrslur flokka og nefnda.
  3. Undirritun eiðstafs HSSK.
  4. Lagabreytingar.
  5. Kosning formanns.
  6. Kosning annarra stjórnarmanna.
  7. Kosning tveggja varamanna í stjórn.
  8. Kosning í önnur embætti.
  9. Önnur mál.

Skýrsla stjórnar og skýrslur flokka skulu vera aðgengilegar félögum á fundinum.

13. gr. Árgjald

Árgjald sveitarinnar skal haldast óbreytt milli ára nema annað sé ákveðið á sveitarfundi.

Tímabil árgjalds er frá upphafi aðalfundar að upphafi næsta aðalfundar.

Sveitin skal gefa út félagsskírteini til þeirra sem greitt hafa árgjald.

14. gr. Sveitarfundur

Stjórn sveitarinnar getur boðað til sveitarfunda, þegar henni þykir þess þörf.

Ennfremur er stjórninni skylt að boða til sveitarfundar er 50 félagar óska þess skriflega og greina fundarefni.

Hafi stjórn sveitarinnar ekki haldið fund innan 14 daga eftir að henni barst krafan þá geta hlutaðeigandi félagar sjálfir kvatt til fundar.

Rétt til setu á sveitarfundi hafa félagar, gestafélagar og nýliðar. Atkvæðisbærir eru þeir félagar sem greitt hafa árgjald.

Sveitarfund skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara, annaðhvort skriflega eða með auglýsingu. Fundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Komi upp efasemdir um lögmæti fundar skal boða til nýs fundar innan viku sem verður lögmætur með þeim sem mæta. Úrslitum mála á fundi ræður einfaldur meirihluti.

Fundargerðir skulu staðfestar með undirskrift formanns og ritara, varðveittar með tryggilegum hætti og vera aðgengilegar félögum.

15. gr. Uppstillingarnefnd

Stjórn skipar uppstillingarnefnd sem stillir upp framboði fyrir aðalfund.

Uppstillingarnefnd stillir upp framboðum fyrir aðalfund og skal leitast við að stjórn endurspegli breidd félagsins.

Uppstillingarnefnd skal leitast við, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn HSSK.

16. gr. Kosningar

Stjórn sveitarinnar skal skipuð 7 félögum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og þremur meðstjórnendum. Skulu þeir kosnir á aðalfundi skv. 4. mgr. 12 gr. í þeirri röð sem þar er kveðið á um.

Frambjóðendur eru sjálfkjörnir ef framboð eru jafn mörg og fjölda þeirra embætta sem kjósa skal.

Kjósa skal ef fleiri framboð berast og skal þá kosningin vera skrifleg og leynileg. Falli atkvæði jafnt skal láta hlutkesti ráða. Kjörseðill er aðeins gildur ef kosnir eru jafnmargir og kjósa skal hverju sinni.

Kjörtími stjórnar er 1 ár. Endurkjósa má í stjórn svo oft sem vill. Engan má kjósa í stjórn nema hann sé félagi sveitarinnar. Allir félagar eru skyldir að taka við kosningu eitt kjörtímabil.

17. gr. Stjórn sveitarinnar

Formaður boðar til stjórnarfundar. Stjórnarfundur er lögmætur ef minnst 5 stjórnendur eru á fundi. Úrslitum ræður afl atkvæða, en séu þau jöfn, ræður atkvæði formanns. Allar fundarályktanir skulu staðfestar með undirskrift stjórnarmanna, varðveittar með tryggilegum hætti og vera aðgengilegar félögum.

Stjórnin boðar til sveitarfunda og undirbýr fundamálefni, framkvæmdir fundaályktanir, og annast störf milli funda. Stjórnin leggur fyrir aðalfund til úrskurðar reikninga sveitarinnar næsta ár á undan, er hún sér um að séu endurskoðaðir í tæka tíð, enda fylgi tillögur skoðunarmanna og athugasemdir ef einhverjar eru. Stjórnin hefur eftirlit með öllum framkvæmdum sveitarinnar og hefur á hendi eða sér um eftirlit með eignum hennar, innheimtir félagsgjöld, og sér um greiðslu á gjöldum sveitarinnar. Stjórn gætir í öllu réttinda og hagsmuna sveitarinnar.

18. gr. Samningsskuldbindingar

Allir þeir samningar sem stjórnin gerir fyrir hönd sveitarinnar, skv. samþykktum þessum eða fundaályktunum í sveitinni, eru bindandi fyrir sveitina enda liggi meirihluta samþykkt stjórnar fyrir. Stjórnendur 3 saman skuldbinda sveitina. Stjórnin ber ábyrgð gerða sinna fyrir aðalfundi.

19. gr. Endurskoðun reikninga

Hver aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara. Skulu þeir vera félagar sveitarinnar. Kjörtímabil þeirra er eitt ár.

Stjórn sveitarinnar er heimilt að fela löggiltum endurskoðanda endurskoðun ásamt hinum kjörnu skoðunarmönnum.

Skoðunarmenn skulu sannprófa, að reikningum sveitarinnar beri saman við bækur hennar.

Reikningsár sveitarinnar er frá marsbyrjun og út febrúar ár hvert.

IV. KAFLI: Sveitarsjóðir

20. gr. Sveitarsjóðir

Sjóði sveitarinnar skal ávaxta á sem hagkvæmasta hátt hverju sinni og án teljandi áhættu.

Ef starfssemi HSSK leggst niður skulu eignir og tæki sveitarinnar vera í vörslu skátafélagsins Kópa fyrstu 10 mánuðina. Ef engar tilraunir hafa verið gerðar til að endurvekja sveitina að þeim tíma liðnum skal lúta lögum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

21. gr. Varasjóður

HSSK skal eiga varasjóð. Varasjóði HSSK er ætlað:

Ráðstöfun fjár úr varasjóði er aðeins heimil með samþykki aðalfundar. Veðsetning varasjóðs eða lántaka úr honum til skemmri eða lengri tíma er óheimil nema með samþykki aðalfundar. Varasjóður skal varðveittur hjá banka eða löggiltu verðbréfafyrirtæki. Meginstefna við vörslu hans skal vera öryggi frekar en há ávöxtun. Ávöxtun varasjóðs skal bætt við höfuðstól hans.

V. KAFLI: Ýmis ákvæði

22. gr. Aðildarfélög

Sveitin er aðili að Slysavarnafélaginu Landsbjörg, og lýtur lögum og samþykktum þess, eftir því sem við á. Sveitin skal jafnan kappkosta að hafa samstarf við yfirvöld, stjórn almannavarna og aðra björgunaraðila í landinu, og sýna tillitssemi og drengskap í starfi sínu. Aðeins fullgildir félagar geta verið fulltrúar sveitarinnar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg og opinberum nefndum og ráðum.

23. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi, og hljóti breytingartillögur minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Þegar leggja á fyrir fund tillögur um breytingar á lögum, skulu þær ávallt kynntar í fundarboði.

24. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi sveitarinnar 28. apríl 2023.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi