Útkallssími

Á landi, vötnum og ám

112 tekur á móti hjálparbeiðnum til Hjálparsveitar skáta í Kópavogi og annara björgunarsveita á Íslandi, bæði vegna neyðaratvika og almennar aðstoðarbeiðnir. Hringdu ef þú ert í vafa!

Neyðarverðir 112 eru á vakt allan sólarhringinn allan ársins hring. Þeir vinna úr hjálparbeiðnum og kalla út aðstoð beint eða gefa þér samband áfram til rétts aðila, td. lögreglu sem fer með yfirstjórn langflestra aðgerða björgunarsveita á landi.

Þegar stór atvik verða, til dæmis óveður eða aðrar náttúruhamfarir, má búast við að álag á neyðarlínuna aukist mikið. Þá er mikilvægt að þekkja inn á hvernig neyðarlínan vinnur úr hjálparbeiðnum svo símtalið gangi hratt og örugglega fyrir sig. Sjá upplýsingar á heimasíðu 112.

GSM

Þú getur notað GSM síma til að hringja í 112 á Íslandi ef:

  1. Þú ert innan þjónustusvæðis einhvers símafyrirtækis sem símtækið getur átt samskipti við.
  2. Síminn er ekki rafmagnslaus.

Þú þarft ekki að vera með inneign, vera í áskrift hjá símafyrirtækinu eða hafa SIM-kort í símanum.

Gervihnattasímar

Til að hringja í 112 á Íslandi í gegnum gervihnattasíma þarft þú að hringja í símanúmerið 00 354 809 0112 þar sem 00 í byrjun númersins er forskeitið sem notað er til að hringja millilandasímtal. Við mælum með því að þú setjir númerið á límmiða utan á símanum og vistir það í símaskrá símans.

Athugið að Ísland er á jaðri dreifikerfis sumra gerfihnattakerfa. Hafið samband við þjónustuaðila kerfisins til að fá nánari upplýsingar um hvar hægt er að ná sambandi við það

Á sjó

Frá æfingu sjóbjörgunarhópa björgunarsveita

Á sjó er best að nota hefðbundnar fjarskiptaleiðir sjófarenda. Skip og bátar á siglingu í nágrenni við landið ættu að kalla eftir aðstoð nærliggjandi sjófarenda og björgunarsveita í gegnum Vaktstöð siglinga á rás 16 á VHF (156,800 MHz). Einnig ætti að nota neyðarhnappinn á STK og DSC tækjum í neyðartilfellum. Vaktstöð siglinga fer með yfirstjórn langflestra aðgerða björgunarsveita á sjó og vaktar þessar fjarskiptaleiðir allan sólarhringinn allan ársins hring. Sjá upplýsingar á heimasíðu Vaktstöðvar siglinga. Einnig er hægt að kalla eftir aðstoð í gegnum 112.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi