Undanfarar

Undanfarar eru hópur björgunarmanna sem sérhæfir sig í fjallamennsku og fjallabjörgun. Helstu verkefni hópsins eru leit á svæðum sem eru erfið yfirferðar, björgun úr brattlendi og einnig sjá undanfarar um þjálfun nýliða í fjallamennsku, ísklifri og fjallabjörgun.

Í hópnum starfa jafnan þeir sem virkastir eru í fjallamennsku á hverjum tíma enda þurfa undanfarar að vera í mjög góðu líkamlegu formi og hafa mikla reynslu af fjallamennsku og klifri. Einnig þurfa meðlimir hópsins að hafa góða þjálfun á öðrum sviðum svo sem skyndihjálp og leit í snjóflóðum. Landsstjórn björgunarsveita setur ákveðnar viðmiðunarreglur um þjálfun og búnað undanfara sem flokkurinn uppfyllir.

Undanfarar æfa að minnsta kosti tvisvar í mánuði, þar af æfa allar undanfarasveitir á höfuðborgarsvæðinu sameiginlega einu sinni í mánuði. Einnig er samstarf á milli undanfara og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og eru sameiginlegar æfingar haldnar nokkrum sinnum á vetri. En í raun æfa meðlimir hópsins mun meira þar sem allir hafa þeir fjallamennsku og klifur að áhugamáli og jafnvel atvinnu. Í gegnum tíðina hafa undanfarar alltaf sótt mikla þekkingu og þjálfun í fjallaferðum erlendis svo og fengið erlenda kennara til landsins.

Stór hluti af starfinu fer því í þjálfun enda þurfa undanfarar að vera tilbúnir að fara hvert sem er, hvenær sem er og í hvaða aðstæður sem er með mjög stuttum fyrirvara. Þar þurfa þeir að vera sjálfum sér nógir í að minnsta kosti sólarhring.

Allir sem hafa áhuga á fjallamennsku og klifri eiga erindi í undanfarahópinn. Þar sem hópurinn sér að stórum hluta um þjálfun nýliða er stöðugt fylgst með upprennandi einstaklingum og reglulega er farið í krefjandi ferðir þar sem tilvonandi undanfarar fá tækifæri til að sanna sig og afla sér reynslu undir handleiðslu reyndari félaga.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi