Nýir félagar

Í byrjun september á hverju ári tekur sveitin inn nýja einstaklinga í nýliðaþjálfun hjálparsveitarinnar. Á því eina og hálfa ári sem þjálfunin stendur yfir öðlast nýliðarnir reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til að geta tekist á við verkefni sem björgunarsveitir þurfa að leysa allan ársins hring.

Snemma á haustin er haldinn kynningarfundur um nýliðaferlið og starf björgunarsveita. Ef þú ert 18 ára eða eldri og hefur áhuga á að taka þátt eða villt athuga hvort þetta er eitthvað fyrir þig skaltu mæta í Hjálparsveitarskemmuna við Bakkabraut 4 í Kópavogi næst þegar kynningarfundur verður haldinn. Dagsetning verður auglýst á forsíðu hssk.is og á facebook síðunni okkar.

Nýliðar læra bóklega hluta rötunarnámskeiðsins

Þjálfunin

Þjálfun nýrra félaga tekur um eitt og hálft ár og það er margt að læra. Meðal þess sem nýliðar læra á þessu tímabili er rötun, fyrsta hjálp, ferða- og fjallamennska, ísklifur, leitartækni, umgengni við þyrlur og meðferð björgunarbáta sveitarinnar.

Nýliðar þurfa ekki að eiga neinn búnað þegar þeir koma í fyrsta skiptið, eina sem þarf er áhugi. Á ferðamennskunámskeiðinu sem er vanalega með fyrstu námskeiðunum, er farið yfir hvað þarf að hafa í huga þegar fatnaður, bakpokar og annar búnaður er keyptur. Sveitin lánar dýran sérhæfðan búnað eins og ísaxir, sigbelti, brodda, ýla ofl. til nýliða í ferðum sveitarinnar og þurfa þeir því aðallega að hugsa um að koma sér upp venjulegum ferðabúnaði fyrst um sinn eins og útivistarfatnaði, svefnpoka, bakpoka og þessháttar til að byrja með. Öll námskeið og ferðir sem nýliðar sveitarinnar taka þátt í eru á kostnað sveitarinnar, ef frá eru taldar námsbækur sem seldar eru á kostnaðarverði. Á móti taka nýliðar fullan þátt í fjáröflunum sveitarinnar eins og td. flugeldasölu og sölu á neyðarkalli.

Nýliðar á rötunarnámskeiði

Nokkur námskeið sem nýliðar taka

Rötun

Rötunarnámskeiðið gengur fyrst og fremst út á meðferð og notkun áttavita, kortalestur og notkun staðsetningartækja (GPS). Kenndar eru aðferðir við að nota þessi tæki saman og endað er á æfingu þar sem nýliðarnir þurfa að rata um óbyggðir í myrkri með engin önnur hjálpartæki en áttavita og kort. Á þessari æfingu eru eldri og reyndari félagar á vakt til að fylgjast með að ekkert fari úrskeiðis.

Fyrsta hjálp 1 og 2

Allir nýliðar fara á tvö fyrstuhjálparnámskeið. Þar lærir fólk alla almenna fyrstuhjálp, endurlífgun, flutning slasaðra o.fl. Auk þessa lærir fólk að nýta sér það sem hendi er næst þegar slys verða. Fjölmargar æfingar eru haldnar, bæði á námskeiðunum sjálfum og eins utan þeirra þar sem nýliðar æfa aðferðirnar sem kenndar eru. Einnig er farið yfir skipulag björgunaraðgerða þegar stórslys verða og vinna samkvæmt skipulaginu æfð.

Vetrarfjallamennska

Ferða- og fjallamennskunámskeið

Farið er yfir það nauðsynlegasta sem fólk þarf að vita og kunna þegar það ferðast um í óbyggðum Íslands, td. hvaða búnað fólk á að hafa með sér og hvernig hann virkar. Tvisvar yfir tímabilið farið á helgarnámskeið þar sem leiðarval, ganga í línu, hnútar, klettasig, ganga á broddum, notkun á ísexi og margt fleira er sérstaklega æft við alvöru aðstæður í fjallendi að vetri til.

Ísklifur 1

Æfð er notkun mannbrodda á jökli, beiting ísaxa, klifur á ís, leiðarval á jöklum, björgun úr sprungum og fleira.

Leitartækni

Farið er yfir það skipulag sem notað er við leit á landi og mismunandi aðferðir æfðar. Leit að týndu fólki er fag og þeir sem taka þátt í leit þurfa að vera meðvitaðir um margt.

Einnig læra nýliðar um fjarskipti, snjóflóð, rústabjörgun og fleira sem björgunarsveitarmenn þurfa að vita auk þess sem mikið er ferðast og reynslu safnað.

Ef einhverjar spurningar vakna skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur í tölvupósti á thjalfun@hssk.is. Við hlökkum til að sjá þig!

Hjálparsveit skáta í Kópavogi