Hálendisvakt sveitarinnar fékk aðstoðarbeiðni frá Lögreglu um kvöldmatarleitið vegna tveggja kvenna sem höfðu lent í sjálfheldu. Fyrstu upplýsingar voru að þær væru í brattri fjallshlíð einhversstaðar í nágrenni við Landamannalaugar. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er í rauninni allt Landmannalaugasvæðið meira og minna þakið bröttum fjallshlíðum og því leit út fyrir í fyrstu að það eitt að finna þær yrði talsvert stórt verkefni. Fljótlega kom þó annað kall í talstöðina, á ensku í þetta skiptið, og þá var búið að staðsetja þær í brekku á Brennisteinsöldu. Þar var á ferðinni félagi úr vinasveit hjálparsveitarinnar í Skotalandi. Hann hafði ákveðið að skokka Laugahringinn seinnipart dags því lítið hafði verið að gera þann daginn og var því svo sannarlega réttur maður á réttum stað.
Upp á Brennisteinsöldu liggja tvær gönguleiðir, annarsvegar frá Laugarveginum og hinsvegar er hægt að fara leið sem liggur niður að Laugahrauni í áttina á Vondugiljum. Konurnar tvær voru hinsvegar að reyna að fara niður í áttina að hverasvæðinu í Laugahrauni sem er mjög brött og illfær hlíð.
Þegar komið var upp á Brennisteinsöldu var sett upp lína og konurnar hífðar upp á topp aftur. Þeim var síðan fylgt gangandi niður að Landmannalaugum, aðeins skrámaðar og aumar eftir að hafa runnið í fjallshlíðinni en ómeiddar að öðru leiti.
Þetta er annað árið í röð sem félagi úr Tweed Valley Mountain Rescue Team (TWMR) kemur til okkar og tekur þátt í hálendisvaktinni með okkur. TWMR er sjálboðaliðabjörgunarsveit í Skotlandi sem stofnuð var sama ár og hjálparsveitin, árið 1969 og hafa sveitirnar átt gott samstarfi frá því á 40 ára afmælinu árið 2009.
Deila útkallinu