Sveitin var boðuð út nokkrum sinnum á tímabilinu frá 16. - 22. janúar til leitar að ungri konu sem hafði verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 14. janúar. Í upphafi leitar voru svæði leituð í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún sást síðast og í Hafnarfirði þar sem farsími hennar kom síðast inn á sendi. Þar sem engar upplýsingar lágu fyrir í upphafi sem gáfu til kynna afhverju hún var týnd var erfitt að skipuleggja leitarverkefni á afmörkuðum svæðum.
Almenningur tók virkan þátt í leitinni í upphafi og notuðust við samfélagsmiðla til að samræma sig. Tveir sjálfboðaliðar fundu skó hennar við Hafnarfjarðarhöfn seint að kvöldi 16. janúar og í framhaldinu leituðu björgunarsveitir þar alla nóttina og daginn eftir. Einnig voru svæði við Urriðakotsholt leituð út frá nýrri greiningu á farsímagögnum. Næstu daga var leitinni haldið áfram í Hafnarfjarðarhöfn og annarsstaðar út frá vísbendingum frá almenningi og niðurstöðum rannsóknarvinnu sem stóð yfir alla dagana.
Helgina 21. - 22. janúar var síðan heildarútkall á allar björgunarsveitir landsins til að leita alla slóða á suðvesturhorni landsins. Þá var orðið ljóst að sú týnda hafði farið með tilteknum bíl og verkefnið var að leita utan alfaraleiðar allstaðar 100 metra út frá þeim vegum og vegaslóðum sem þessi bíll hefði getað farið. Út frá þeim vísbendingum sem lágu fyrir var svæðum forgangsraðað og byrjað að leita í kringum Heiðmörk og út á Reykjanes. Metfjöldi björgunarsveitarmanna allstaðar að af landinu tóku þátt í leitinni og gisti hluti þeirra í bækistöð sveitarinnar við Kópavogshöfn.
Sunnudaginn 22. janúar fannst sú týnda látin í fjöru við Selvog á Reykjanesi. Lögregla rannsakar málið sem sakamál.
87 félagar sveitarinnar tóku beinan þátt í leitinni og fjölmargir fleiri komu að henni á einn eða annan hátt. Öll farartæki sveitarinnar nema snjótæki voru notuð auk þess sem fjöldi tækja var til viðbótar fenginn að láni til að nýta í leitinni.
Deila útkallinu