Þann 24. júní sl. afhenti Hjálparsveit skáta í Kópavogi Héraðskjalasafni Kópavogs ýmis gögn til varðveislu. Eins og fram kom á sveitarfundi fyrr á þessu ári hefur mikið magn ómetanlegra heimilda um sögu sveitarinnar varðveist og ákveðið var að óska eftir aðkomu safnsins til að tryggja örugga varðveislu. Héraðskjalasafn Kópavogs tók þessum heimildum fagnandi og sögðu starfsmenn hér um að ræða mikilvægan hlekk í sögu Kópavogs. Gögnin sem afhent voru eru fundargerðarbækur stjórnar frá upphafi árið 1969 til ársins 2011, fundargerðir sveitarfunda frá upphafi til ársins 2005 auk bóka sem innihalda ferðasögur (25 ár), fundargerðir sveitarráðs (5 ár), aðgerðalýsingar (16 ár), fundargerðir húsnefndar (7 ár) auk gestabókar (25 ár).
Deila fréttinni