Flugeldasalan undirbúin

Undirbúningur fyrir flugeldasölu sveitarinnar 2015 hefur verið í fullum gangi núna síðustu vikur. Flugeldar eru seldir 28. - 31. desember á flugeldasölustöðum sveitarinnar útum allan Kópavog og síðan verður þrettándasala í húsnæði sveitarinnar við Bakkabraut. Björgunarsveitir flytja í sameiningu inn flugelda til landsins undir merkjum Flugeldamarkaða Björgunarsveitanna og selur hver sveit í sinni heimabyggð. Allur ágóði sölunnar hérna í Kópavogi rennur til sveitarinnar og stendur undir meirihluta af rekstrarkostnaði hennar allt árið þó að sölutímabilið sé stutt.

Flugeldasölustaður að verða klár 2014 Mynd: SigÓSig ljósmyndari

Undirbúningur flugeldasölunnar hófst í vor þegar flugeldarnir voru pantaði frá framleiðandanum í Kína. Það þarf því að vera búið að ákveða hversu margar rakettur, tertur, stjörnuljós, blys og fjölskyldupakka við teljum okkur geta selt marga mánuði fram í tímann. Stundum gerist það að við annaðhvort van- eða ofáætlum hversu mikil salan verður en flugelda má geyma í þar til gerðum geymslum í allt að tvö ár þannig að það kemur yfirleitt ekki að sök. Það borgar sig þó að mæta tímanlega á sölustað til að vera viss um að flugeldarnir sem þú vilt kaupa séu ekki uppseldir. Yfirlit yfir vörur og verð er að finna á flugeldar.is, birt með fyrirvara um villur og gildir að sjálfsögðu engöngu á meðan birgðir endast.

Þegar salan nær hámarki er nóg að gera. Mynd frá 2014 Mynd: SigÓSig ljósmyndari

Núna í lok nóvember og byrjun desember hófst svo törnin fyrir alvöru, að mörgu er að huga. Mála þarf auglýsingaskilti, undirbúa hillur og búðarborð, búa til kynningarefni, verðmerkja, flokka og koma öllu á sinn stað. Huga þarf vel að eldvarnarmálum, láta yfirfara öll slökkvitæki og koma fyrir öðrum öryggisbúnaði. Einnig þarf að teikna staðina upp, yfirfara að allar flóttaleiðir standist kröfur og fá samþykki og leyfi opinberra aðila.

Flugeldar lýsa upp himininn í Kópavogi

Núna fer að líða að því að stutt hlé verði gert á undirbúningi á meðan við höldum upp á jólin en vinnan fer síðan á fullt aftur á annan í jólum. Þá byrjum við að innrétta búðirnar sjálfar og klára allt annað sem á eftir að gera. Mis mikið þarf að framkvæma á hverjum sölustað fyrir sig en á stöðum þar sem við fáum að nota húsnæði sem er venjulega í annarskonar notkun þarf oft að setja upp auka eldvarnarveggi og breyta útgönguleiðum þannig að þær uppfylli kröfur. Eldvarnarkröfur hafa verið að aukast jafnt og þétt og hefur verið brugðið á það ráð á mörgum stöðum að setja upp sölustaði í færanlegum húsum eða þar til gerðum gámaeiningum sem síðan eru teknar niður eftir að sölu lýkur.

Merki öryggisakademíunnar og flugeldamarkaða björgunarsveitanna

Við viljum hvetja foreldra til að fara vel yfir það með börnum sínum hvernig eigi að umgangast flugelda og brýna fyrir þeim að reyna aldrei að meðhöndla þá nema einhver fullorðinn sé meðferðis. Á Youtube síðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar er að finna myndbönd Öryggisakademíunnar og við hvetjum alla til að vera búinn að skoða þau áður en sala hefst. Við skjótum upp flugeldum gamansins vegna en til að gamanið snúist ekki upp í martröð verða allir að vera meðvitaðir um að röng notkun þeirra getur haft mjög alvarlegar afleiðingar.

Deila fréttinni

Nýjustu fréttir

Hjálparsveit skáta í Kópavogi