Útköll

F3 gulur: Ófærð á höfuðborgarsvæðinu

Kröpp lægð með suðaustan stormi og úrkomu gekk yfir landið. Allir helstu vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu lokuðust vegna veðurs, snjókomu, skafrennings og blindu auk þess sem ófært varð víða innanbæjar. Sveitin aðstoðaði meðal annars vegfarendur í efri byggðum Kópavogs. Veður gekk niður um kvöldið, hlýnaði og vindur snerist til ...

F2 rauður: Leit að flugvél á/við Þingvallavatn.

Bátar og gönguhópar voru boðaðir til leitar vegna lítillar flugvélar sem talið var að farið hafi í Þingvallavatn. Útkallið var afturkallað áður en hópar lögðu af stað eftir að ljóst var að vélin var ekki í hættu.

F2 rauður: Slóðaleit á höfuðborgarsvæðinu

Sveitin var boðuð til leitar að manni á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn var á bíl og voru því allir slóðar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins leitaðir. Hann fannst eftir um sex klukkutíma leit.

F2 rauður: Leit að konu á Fjallabaki

Leit að konu sem hugðist fara á gönguskíðum umhverfis Mýrdalsjökul og talið var að væri norðan jökulsins. Snjóbíll sveitarinnar fór austur rétt eftir hádegi en ferðin sóttist hægt vegna aftakaveðurs sem var á svæðinu. Þeir fundu konuna heila á húfi morguninn eftir.

F1 rauður: Vélsleðaslys í Skálafelli

Sleðar, snjóbíll, jeppar og undanfarar voru boðaðir vegna vélsleðaslys í Skálafelli. Tveir menn á tveimur vélsleðum höfðu farið fram af hengju og óttast að þeir væru slasaðir. Snjóblinda og skafrenningur gerði hópum erfitt fyrir að athafna sig. Mennirnir voru fluttir á snjótroðara niður í sjúkrabíl sem flutti þá á slysadeild.

F3 grænn: Bílar fastir við Hjallaflatir

Óskað var eftir aðstoð vegna fólks á tveimur föstum bílum við Hjallaflatir í Heiðmörk. Hvorki lögregla né dráttarbíll komust á staðinn vegna ófærðar. Það náðist að losa annan bílinn en fólkið úr hinum bílnum var flutt til byggða.

F2 gulur: Innanbæjarleit að ungri stúlku

Um kvöldmatarleitið var sveitin boðuð til leitar að ungri stúlku í Reykjavík sem ekkert hafði spurst til síðan rétt eftir hádegi. Stúlkan fannst heil á húfi um klukkustund eftir boðun.

F3 grænn: Óveður á höfuðborgarsvæðinu

Sveitin kölluð út vegna óveðursaðstoðar í austur- og vesturbæ Reykjavíkur. Einn hópur var sendur til aðstoðar og sinnti tveimur verkefnum, m.a. að binda niður fellihýsi sem var laust og saga niður tré sem hafði brotnað í óveðri.

F2 rauður: Slys við Lambafell

Maður fótbrotnaði við Lambafell suðaustan við Bláfjöll. Undanfarar af svæði 1 og 3 voru á samæfingu með þyrlu Landhelgisgæslunnar við Sandskeið og fóru á vettvang. Þyrlan kom fyrst að og flutti hinn slasaði á slysadeild.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi